EFLA - Allt mögulegt

Við á EFLU unnum ítarlega stefnumótun á árinu 2020, má segja í miðju fárviðri heimsfaraldurs. Við slíkar aðstæður mætti ætla að mikilvægast væri að horfa til skemmri tíma og halda sjó. Það skiptir máli, en um leið ræður úrslitum til framtíðar hvernig land-takan verður, og hversu skýran leiðarvísi við höfum í okkar áframhaldandi vegferð við breyttar aðstæður. Vel skilgreint hlutverk fyrirtækisins, framtíðarsýn og gildi verða þá kjölfestan í starfsemi og samfélagslegri ábyrgð EFLU.


Það er ekki einungis lærdómur af heimsfaraldri sem kallar á nýja hugsun, heldur er heimurinn í hraðri umbreytingu í fjölmörgu tilliti. Augljósir kraftar þar eru stafræn þróun, áskoranir í loftslagsmálum, krafan um grænar lausnir, upplýsingasamfélagið og framþróun og hagnýting þekkingar.


Þó aðstæður breytist helst grundvallarhlutverk EFLU áfram hið sama - að koma fram með 
lausnir sem stuðla að framförum viðskiptavina og efla samfélög. Þannig er hlutverk fyrirtækisins ásamt gildunum hugrekki, samvinna og traust áfram samofið samfélagslegri ábyrgð félagsins.

 

Ný framtíðarsýn EFLU til ársins 2025 segir: „EFLA verður fyrirmynd þekkingarfyrirtækja og brautryðjandi við úrlausn brýnna samfélagsverkefna“. Þessi metnaðarfulla framtíðarsýn gefur ótvírætt til kynna þungamiðju samfélagslegrar ábyrgðar í allri starfsemi EFLU, og fylgir eftir forystu EFLU á þessum vettvangi í yfir tvo áratugi. Við viljum vera lykilþátt-takandi í að breyta samfélögum í þeim tilgangi að bæta lífsgæði fólks, þróa mikilvæga innviði og auka arðbærni atvinnulífs. Mestum árangri náum við með okkar ráðgjöf, þjónustu og nýsköpun í gífurlega fjölbreyttum verkefnum um allt samfélagið. En þeim árangri viljum við einnig ná með starfsemi sem er til fyrirmyndar.


Fimm megináherslur styðja þessa framtíðarsýn. Þær snúa að þróun mannauðs fyrir-tækisins, auknu virði til viðskiptavina, sjálfbærni, stafrænni þróun og nýsköpun til árangurs. Í öllum þessum áherslum verður samfélagsleg ábyrgð leiðarljós.
 

Nálgun atvinnulífsins við samfélagslega ábyrgð hefur þróast hratt. Til skamms tíma var samfélagsleg ábyrgð gjarnan til hliðar við kjarnastarfsemina og haldið utan um sérstaklega. Mörg fyrirtæki tóku síðan frumkvæði og höfðu forystu um einstaka málefni svo sem umhverfismál og félagslega eða siðferðilega þætti. Þar hefur EFLA frá upphafi verið í leiðandi hlutverki. Þátttaka í alþjóðlegum sáttmálum, markmiðum og leið-
beiningum hefur svo komið til, svo sem í Parísarsáttmálanum um loftslagsmál, Global Compact sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagslega ábyrgð, heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og UFS leiðbeiningum um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja. Allt eru þetta mikilvægir leiðarvísar.

 

Næsta skref í þróun atvinnulífsins í samfélagslegri ábyrgð er að láta verkin tala – alls staðar. Skilningurinn er kominn, samfélög þrýsta á ábyrgð og ekkert fyrirtæki mun ná árangri nema í sátt við sitt umhverfi. Þannig er samfélagsleg ábyrgð nú ekki lengur hliðarbúgrein heldur drifkraftur fyrirtækja til árangurs.
 

Samfélagsskýrsla þessi sýnir vel árangur EFLU á sviði samfélagslegrar ábyrgðar. Með nýja framtíðarsýn og stefnumörkun í farteskinu er EFLA afar vel staðsett til áframhaldandi forystu á þessum vettvangi!

 

 

 

 

Guðmundur Þorbjörnsson

framkvæmdastjóri EFLU

Guðmundur.png