EFLA - Allt mögulegt

Hlutverk EFLU verkfræðistofu er að koma fram með lausnir sem stuðla að framförum viðskiptavina og efla samfélög. Kjarninn í samfélagslegri ábyrgð EFLU er að sinna hlutverki sínu til gagns fyrir samfélagið, þar sem samfélagsleg ábyrgð er samofin hlutverki fyrirtækisins.

Í einu vetfangi hafa allar forsendur í umhverfi EFLU gerbreyst. Heimsbyggðin er að kljást við faraldur sem lagt hefur samfélög á hliðina. Efnahagslíf verður fyrir þungum áföllum, og atvinnulíf raskast.

Við slíkar aðstæður er mikilvægara en nokkru sinni að halla sér að grundvallarhlutverki fyrirtækisins. Kjarninn í hlutverki EFLU verður ennþá mikilvægari, því samfélög þurfa stuðning, hugmyndir, þekkingu og lausnir sem styðja þau áfram. EFLA verkfræðistofa býr yfir gríðarlegum mannauði með afar fjölbreytta þekkingu og reynslu sem nú getur eflt okkar samfélög sem aldrei fyrr.

Þegar faraldrinum linnir munu samfélögin rísa á ný. Að einhverju marki verða þau áfram sambærileg þeim sem við höfum áður þekkt, en í öðrum efnum munu ný viðhorf og aðferðir gerbreyta framtíðinni. EFLA mun þar ekki skorast undan, heldur verður það samfélagsleg ábyrgð fyrirtækisins að vera þátttakandi og leiðandi inn í nýja tíma. Þar kunna tækifærin og viðfangsefnin að verða nýstárleg, en það verður áskorun og ábyrgð fyrirtækisins að láta þar til sín taka.

Samfélagsleg ábyrgð nær til umhverfislegra, félagslegra, hagrænna og siðferðislegra þátta. Þau grundvallaratriði breytast ekki. Í því samhengi vill EFLA eiga ríkt erindi, bæði í ráðgjöf fyrirtækisins og innri starfsemi. EFLA er aðili Global Compact sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagslega ábyrgð, og hefur til hliðsjónar heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

EFLA hefur valið sér þau heimsmarkmið sem sterkast samræmast hlutverki og kjarnastarfsemi fyrirtækisins, og eru samofin stefnumörkun félagsins. Þetta eru markmiðin um sjálfbæra orku, nýsköpun og uppbyggingu, sjálfbærar borgir og samfélög og aðgerðir í loftslagsmálum. Jafnframt eru markmið sem sérstaklega er horft á til stuðnings, um jafnrétti kynjanna, góða atvinnu og hagvöxt, og ábyrga neyslu.

Í núverandi viðskiptaumhverfi sem einkennist af óvissu og hröðum breytingum er örðugt að gera raunhæfar áætlanir til lengri tíma. Ör tækniþróun vekur einnig upp spurningar um nýjar áherslur í samfélagslegri ábyrgð og ný siðferðileg álitamál. Vel skilgreint hlutverk, megináherslur, gildi og menning fyrirtækis verða því grundvallarþættir samfélagslegrar ábyrgðar fyrirtækja framtíðarinnar. Á þessum þáttum mun EFLA byggja.

 

 

 

 

Guðmundur Þorbjörnsson

framkvæmdastjóri EFLU

EFLA | Lynghálsi 4 | 110 Reykjavík | efla@efla.is

  • White Facebook Icon
  • LinkedIn
  • White YouTube Icon
  • White Twitter Icon