top of page

EFLA - Allt mögulegt

Samfélög taka sífelldum breytingum, en óhætt er að segja að breytingarnar hafa verið bæði meiri og hraðari undanfarin misseri. Ekki nóg með að tæknin dragi vagn breytinga hraðar með hverju árinu heldur hefur heimsfaraldurinn breytt daglegu lífi fjölda fólks. Þær breytingar eru ekki bara til skemmri tíma. Margt bendir til þess að breytingarnar verði varanlegar og þá sérstaklega þegar kemur að fjarvinnu og samskiptum fólks í viðskiptum. Þá breytti stríð í Úkraínu vestrænum veruleika á örfáum dögum og ljóst að áhrifin verða mikil þó engin leið sé að segja til um hversu umfangsmikil þau verða. Það sem hefur ekki breyst er að fyrirtæki verða að vera sífellt sveigjanlegri og fljótari að aðlaga sig að breyttum aðstæðum.
 

EFLA hefur verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa á að skipa gríðarlega öflugum hópi starfsfólks sem hefur verið aflvaki breytinga og leiðandi í þróun nýrra lausna á flestum sviðum verkfræði og tækni. Við sem erum svo heppinn að tilheyra þessum hópi í dag ætlum okkur hvergi að slá af, heldur halda áfram með framtíðarsýn EFLU að leiðarljósi, að verða fyrirmynd þekkingarfyrirtækja og brautryðjandi við úrlausn brýnna samfélagsverkefna, og þar er af nógu að taka. Ísland, og raunar mannkyn allt, hefur sett sér metnaðarfull markmið til að stemma stigu við mengun sem ógnar öllu lífi á jörðinni til lengri tíma litið. Til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem veldur hlýnun andrúmsloftsins með ýmsum afleiðingum eins og súrnun sjávar og  öfgum í verðurfari þarf að finna upp nýja tækni og ráðast í stórtækar aðgerðir. Við þurfum að breyta notkun mannkyns á auðlindum jarðar og innleiða hringrásarhagkerfi þar endurnýting verður lykil að breyttu samfélagi.
 

Stjórnvöld þurfa að setja skýran og sem einfaldastan ramma um nýjar áherslur til að hægt sé að ná markmiðum um kolefnishlutleysi og samfélag án notkunar jarðefnaeldsneytis. Takist það, ásamt því að setja hvata til að flýta sem mest þeirri umbyltingu sem þarf að eiga sér stað, mun atvinnulífið finna lausnir til að ofangreindum markmiðum verði náð. Við hjá EFLU munum ekki láta okkar eftir liggja enda gerum við okkur grein fyrir að ráðgjöf okkar, þjónusta og nýsköpun getur haft mikil áhrif til góðs í samfélaginu. Við munum áfram setja okkur sífellt metnaðarfyllri markmið um samfélagslega ábyrgð í eigin rekstri og leggja áherslu á umhverfismál, félagslega og siðferðilega þætti. Jafnframt erum við á þeirri vegferð að samtvinna umhverfisvæna hugsun og lausnir inn í alla okkar þjónustu og ráðgjöf. Með því viljum við hjálpa viðskiptavinum að sjá ný tækifæri í því að stíga skref í átt að grænni framtíð og um leið færa þeim meira virði en ella.


Núverandi og næsti áratugur þurfa að verða áratugir aðgerða í loftlagsmálum. Allar vísbendingar segja okkur að við séum í kappi við tímann. Sem samfélag þurfum við að bera gæfu til að ræða hlutina málefnalega, finna lausnir og hrinda þeim hratt í framkvæmd. EFLA ætlar sér að vera virkur þátttakandi í því ferli, enda er það hluti af því að vera samfélagslega ábyrgt fyrirtæki.

Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri EFLU.

bottom of page