EFLU-þing og samfélagsleg verkefni

EFLU-ÞING UM FASTEIGNIR OG RAKASKEMMDIR

Málefni tengd fasteignum og rakaskemmdum voru rædd á EFLU-þingi sem fór fram í
maí 2019. Umfjöllunarefnin voru sýnataka í húsnæðum vegna rakaskemmda og úrræði í tengslum við ágreiningsmál vegna fasteignagalla. Viðburðurinn var afar vel sóttur en um 70 manns mættu og sköpuðust líflegar umræður.

FORVARNIR VEGNA RAKAVANDAMÁLA Í BYGGINGUM

Á árinu heimsótti starfsfólk EFLU Tækniskólann og byggingarfulltrúa á Selfossi. Meðal þess sem fjallað var um voru orsakir rakavandamála í byggingum og hvernig megi fyrirbyggja þau. Í því samhengi telja sérfræðingar EFLU að nauðsynlegt sé að fræða sem flesta um ákjósanlegar byggingaraðferðir og umgengni í byggingum. 

ENDURNÝJANLEGIR ORKUGJAFAR

Alþjóðleg ráðstefna um rannsóknir og þróun á endurnýjanlegum orkugjöfum fór fram í Reykjavík í október 2019. Orkuskiptin eru eitt af stóru umhverfismálunum og lætur EFLA
sig málefnið varða með beinum hætti. Þannig leggur EFLA áherslu á að sinna nýsköpunar-verkefnum sem tengjast nýjum orkugjöfum, sjálfbærni og umhverfisáhrifum jarðhita-nýtingar háhitasvæða á Íslandi. Starfsfólk EFLU hélt erindi um lágvarmavirkjun og kolefnisspor bygginga á ráðstefnunni.

 

ARCTIC CIRCLE

EFLA er einn af bakhjörlum Arctic Circle ráðstefnunnar sem fer fram árlega á Íslandi til að ræða málefni Norðurslóða og loftslagsmál. EFLA tók virkan þátt í ráðstefnunni og sá um skipulagningu tveggja málstofa. Önnur málstofan fjallaði um uppbyggingu hafnarstarfsemi í Finnafirði og hin um uppbyggingu ferðaþjónustu og álag á ferðamannastaði. 

 

VISTVÆN STEYPA

EFLA og Steinsteypufélag Íslands héldu málstofu um vistvæna steypu en áhugi og eftirspurn eftir umhverfisvænni steypu hefur aukist. Fjögur erindi voru flutt á málþinginu; Þróun vistvænnar steypu á Íslandi, Umhverfisvæn framleiðsla hjá dönskum sements-framleiðanda, Notkun vistferilsgreininga í steypuframleiðslu og Umhverfisvottanir bygginga og vistferilshugsun í byggingariðnaði. 

STELPUR OG TÆKNI

EFLA styður við bakið á framtakinu Stelpur og tækni og tekur á hverju ári á móti stelpum í starfsstöðvarnar á Norðurlandi og í Reykjavík. Þar fá þær innsýn í starfsemina og hlýddu á kvenkyns sérfræðinga hjá EFLU segja frá reynslu sinni af tækni- og verkfræðinámi.