Félagasamtök og EFLA

GLOBAL COMPACT SÁTTMÁLI SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA

EFLA skrifaði undir Global Compact sáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 2015 og skuldbatt sig þannig til að fylgja þeim tíu grundvallarviðmiðum sáttmálans um samfélagslega ábyrgð sem snúa að mannréttindum, vinnumarkaði, umhverfi og baráttu gegn spillingu. Áhersla fyrirtækisins á samfélagslega ábyrgð hefur vaxið jafnt og þétt og er samfélagsleg ábyrgð nú orðin rauður þráður í stefnumiðum fyrirtækisins, sem og áhersluþáttur í þeirri ráðgjöf sem fyrirtækið veitir út á við.

FESTA, MIÐSTÖÐ UM SAMFÉLAGSLEGA ÁBYRGÐ

EFLA er aðili að Festu, miðstöð um samfélagslega ábyrgð. EFLA er afar stolt af því að hafa verið eitt af 103 íslenskum fyrirtækjum sem skrifaði upphaflega undir sameiginlega yfirlýsingu fyrirtækja og stofnana um markmið í loftslagsmálum í nóvember 2015. Með undirskriftinni skuldbindur EFLA sig til að taka þátt í hvatningu um ábyrgð í umhverfismálum heimsins og mun fyrirtækið, hér eftir sem hingað til, halda áfram á þeirri braut og vera í forystu bæði í eigin starfsemi og ráðgjöf í umhverfismálum og umhverfistengdum verkefnum.

 

EFLA hefur sett sér bæði skammtímamarkmið til ársins 2020 og langtímamarkmið til ársins 2030 um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og minnka myndun úrgangs. Ætlar fyrirtækið að ná þessum markmiðum sínum meðal annars með því að nota minna af óendurnýjanlegu hráefni og umbúðum, endurvinna og endurnýta.

NORDIC BUILT OG GRÆNNI BYGGÐ

EFLA var fyrsta verkfræðistofan á Íslandi sem skrifaði undir sáttmála Nordic Built. Sáttmálinn hvetur til þróunar á samkeppnishæfum lausnum í vistvænni mann-virkjagerð. Markmið Nordic Built er að fá byggingariðnaðinn til að sameinast um að nýta sérþekkingu sína til að mæta aukinni spurn eftir vistvænni mannvirkjagerð í heiminum og vera leiðandi í nýsköpun, grænum hagvexti og velferð. EFLA er einnig stofnaðili og virkur félagi í félagasamtökunum Grænni byggð sem er vettvangur um sjálfbæra þróun byggðar með það markmið að lágmarka umhverfisáhrif frá mannvirkjagerð, rekstri og niðurrifi.

 

SAMSTARF VIÐ HÁSKÓLA

EFLA leggur áherslu á að vera í miklum og góðum tengslum við háskólasamfélagið. EFLA lítur á það sem forsendu fyrir því að vera leiðandi á sínu sviði og vera þannig fyrst með nýjungar sem leitt geta til betri lausna í verkefnum og stuðlað þannig að enn betri þjónustu við viðskiptavini. Ýtt er undir nýsköpunargleði starfsmanna EFLU um leið og aukið er við þekkingu og færni þeirra. Í ljósi þessa er lögð áhersla á að laða að efnilega háskólanema og mögulega framtíðarstarfsmenn til starfa hjá EFLU og tengja lokaverkefni nemenda við verkefni hjá EFLU.

Á hverju ári ræður EFLA tiltekinn fjölda sumarstarfsmanna og árið 2019 voru
24 sumarstarfsmenn ráðnir til EFLU.

EFLA | Lynghálsi 4 | 110 Reykjavík | efla@efla.is

  • White Facebook Icon
  • LinkedIn
  • White YouTube Icon
  • White Twitter Icon