
Félagasamtök og EFLA
GLOBAL COMPACT SÁTTMÁLI SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA
EFLA skrifaði undir Global Compact sáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 2015 og skuldbatt sig þannig til að fylgja þeim tíu grundvallarviðmiðum sáttmálans um samfélagslega ábyrgð sem snúa að mannréttindum, vinnumarkaði, umhverfi og baráttu gegn spillingu.
Í þessari fimmtu samfélagsskýrslu EFLU er tekið saman árangur fyrirtækisins í samræmi við viðmið Global Compact. Áhersla fyrirtækisins á samfélagslega ábyrgð sína hefur vaxið jafnt og þétt og er samfélagsleg ábyrgð nú orðin rauður þráður í stefnumiðum fyrirtækisins, sem og áhersluþáttur í þeirri ráðgjöf sem fyrirtækið veitir út á við.
FESTA, MIÐSTÖÐ UM SAMFÉLAGSLEGA ÁBYRGÐ
EFLA er aðili að Festu, miðstöð um samfélagslega ábyrgð, og var eitt af 103 íslenskum fyrirtækjum sem skrifaði undir sameiginlega yfirlýsingu fyrirtækja og stofnana um markmið í loftslagsmálum í nóvember 2015. EFLA skuldbindur sig til að taka þátt í hvatningu um ábyrgð í umhverfismálum heimsins og fylgir loftslagsstefnu sem hefur það að markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og minnka myndun úrgangs. Starfsfólk EFLU tekur þátt í vinnu sérfræðihóps Festu og leggur fram vinnu til að uppfæra Loftslagsmæli Festu.
NORDIC BUILT OG GRÆNNI BYGGÐ
EFLA var fyrsta verkfræðistofan á Íslandi sem skrifaði undir sáttmála Nordic Built. Sáttmálinn hvetur til þróunar á samkeppnishæfum lausnum í vistvænni mannvirkjagerð. Markmið Nordic Built er að fá byggingariðnaðinn til að sameinast um að nýta sérþekkingu sína til að mæta aukinni spurn eftir vistvænni mannvirkjagerð í heiminum og vera leiðandi í nýsköpun, grænum hagvexti og velferð. EFLA er einnig stofnaðili og virkur félagi í félagasamtökum Grænni byggðar sem er vettvangur um sjálfbæra þróun byggðar með það markmiði að lágmarka umhverfisáhrif frá mannvirkjagerð, rekstri og niðurrifi.
VOTLENDISSJÓÐUR
EFLA er einn af stofnaðilum Votlendissjóðs og er þátttakandi í stjórn sjóðsins. EFLA hefur meðal annars tekið þátt í að móta aðferðarfræðina við mat á árangri endurheimtar og útfærslu vöktunar.
HÁSKÓLASAMFÉLAGIÐ
EFLA leggur mikið upp úr góðum tengslum við háskólasamfélagið bæði með því að leggja til starfsfólk til að sinna hlutverki leiðbeinanda í lokaverkefnum ásamt því að sinna stundakennslu í háskólunum. EFLA hefur gert samstarfssamning við háskólana og tekur við nemendum í starfsþjálfun til að sinna ákveðnum verkefnum.
Árlega sækir EFLA um styrki í Nýsköpunarsjóð námsmanna og á síðasta ári voru þrjú verkefni sem hlutu brautargengi úr sjóðnum. EFLA leggur áherslu á að laða að efnilega háskólanema og mögulegt framtíðarstarfsfólk til starfa og síðasta sumar voru ráðnir 24 háskólanemar til fyrirtækisins.